Samkvæmt franska blaðinu Le Parisien eru rannsakendur nú farnir að rannsaka veðmál í kringum annan leik hjá franska handboltaliðinu Montpellier. Leikurinn sem um ræðir fór fram 26. apríl síðastliðinn en þar töpuðu frönsku meistararnir á útivelli fyrir Nimes 21:25. Þetta var fyrsti tapleikur Montpellier í deildinni á tímabilinu.
Samkvæmt dagblaðinu var lagt óvenjumikið undir á þennan leik og flest veðmálin voru á þann hátt að Montpellier myndi tapa. Það var breskt veðmálafyrirtæki sem vakti athygli á málinu en mikið af veðmálunum kom erlendis frá og þá sérstaklega frá Asíu. Þetta var sextán dögum áður en Montpellier tapaði á útivelli gegn Cesson en sá leikur hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið vegna veðmálahneykslis. Þetta voru einu leikirnir sem Montpellier tapaði á öllu tímabilinu.
Sjö leikmenn voru ákærðir og settir í leikbann síðastliðinn þriðjudag í tengslum við rannsókn á meintu svindli í leik Montpellier og Cesson. Þetta eru fimm leikmenn frá liði Montpellier og tveir frá París en allir léku þeir með liði Montpellier á síðustu leiktíð. Þetta eru: Nikola Karabatic, Luka Karabatic, Dragan Gajic, Issam Tej, Primoz Prost, Samuel Honrubia og Mladen Bojinovic.
Jón Heiðar Gunnarsson skrifar um franskan handknattleik fyrir mbl.is og Morgunblaðið.