Annað hneykslismál í uppsiglingu hjá Karabatic?

Nikola Karabatic.
Nikola Karabatic. AFP

Samkvæmt franska blaðinu Le Parisien eru rannsakendur nú farnir að rannsaka veðmál í kringum annan leik hjá franska handboltaliðinu Montpellier.  Leikurinn sem um ræðir fór fram 26. apríl síðastliðinn en þar töpuðu frönsku meistararnir á útivelli fyrir Nimes 21:25. Þetta var fyrsti tapleikur Montpellier  í deildinni á tímabilinu.

Samkvæmt dagblaðinu var lagt óvenjumikið undir á þennan leik og flest veðmálin voru á þann hátt að Montpellier myndi tapa. Það var breskt veðmálafyrirtæki sem vakti athygli á málinu en mikið af veðmálunum kom erlendis frá og þá sérstaklega frá Asíu. Þetta var sextán dögum áður en Montpellier tapaði á útivelli gegn Cesson en sá leikur hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið vegna veðmálahneykslis. Þetta voru einu leikirnir sem Montpellier tapaði á öllu tímabilinu.

Sjö leikmenn voru ákærðir og settir í leikbann síðastliðinn þriðjudag í tengslum við rannsókn á meintu svindli í leik Montpellier og Cesson. Þetta eru fimm leikmenn frá liði Montpellier og tveir frá París en allir léku þeir með liði Montpellier á síðustu leiktíð. Þetta eru: Nikola Karabatic, Luka Karabatic, Dragan Gajic, Issam Tej, Primoz Prost, Samuel Honrubia og Mladen Bojinovic. 

Jón Heiðar Gunnarsson skrifar um franskan handknattleik fyrir mbl.is og Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert