Heimir Örn: Erfitt að hafa línumenn í báðum hornunum

Heimir Örn Árnason (til hægri) og Bjarni Fritzson eru spilandi …
Heimir Örn Árnason (til hægri) og Bjarni Fritzson eru spilandi þjálfarar Akureyrar. mbl.is/Skapti

„Mér fannst þetta ágætur leikur á meðan Oddur var með en það varð afar erfitt þegar við þurftum þá að hafa línumenn í báðum hornunum,“ sagði Akureyringurinn Heimir Örn Árnason eftir 30:22-tap fyrir Haukum í Hafnarfirði í dag þegar 6. umferð efstu deildar karla í handbolta lauk.

„Við áttum erfitt með að rífa okkur í gang eftir tapið fyrir Aftureldingu, sá leikur var mestu vonbrigði vetrarins en ég hef séð leiki hjá Mosfellingum og þeir gátu tekið stig á móti FH. Það er því enginn auðveldur leikur í deildinni og það verður bara að segjast eins og er að Haukar eru með sterkasta hópinn. Sérstaklega fannst mér skrýtið að sjá Sveinn Þorgeirsson og Gísla Kristjánsson koma inn af bekknum en önnur lið hafa ekki svona lúxus.“

Mikil meiðsli eru í herbúðum Akureyringa. „Þessi meiðsli eru alveg ótrúleg; brjósklos, tognun á ökkla, tognun á kálfa og síðan tognun á rassi, sem við vissum reyndar ekki að væri til. Svo er ég meiddur ökkla en það er eiginlega bara væl,“ sagði Heimir Örn.

Hann sagði þó marga efnilega drengi í félaginu. Þeir hafa bara ekki farið á stóra sviðið. „Við erum með nokkra unga sem hafa staðið sig vel en taka stundum of mikla áhættu og vita það sjálfir. Bjarni verður vonandi kominn í næsta leik og þá getum við verið með hornamenn í hornunum en þetta verður mikil púsluspil. Það er langt í næsta leik en við erum með marga unga stráka sem stefna lengra. Þeir verða nú að rífa sig upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert