Framtíð Karabatic í lausu lofti

Nikola Karabatic
Nikola Karabatic AFP

Það hefur mikið verið talað um framtíð Nikola Karabatic hjá franska landsliðinu síðustu daga en Claude Onesta landsliðsþjálfari Frakklands valdi hann aftur inn í franska landsliðið í síðustu viku. Þetta val vakti athygli þar sem Karabatic var ekki valinn inn í upprunalega hópinn vegna meints veðmálasvindls.

Rannsókn enn í fullum gangi

Þrátt fyrir að Karabatic sé aftur kominn með leikheimild hjá bæði félagsliði og landsliði sínu þá er opinber rannsókn á meintu veðmálasvindli hans enn í fullum gangi og alls óvíst hvenær lokaniðurstaða fæst í málið. Karabatic viðurkenndi að unnusta sín hefði veðjað á umræddan leik gegn Cesson en segist ekkert hafa komið að því máli sjálfur. Lögfræðingar Karabatic-bræðrana fundu á dögunum smugu í lögunum varðandi veðmálasvindl. Í lögunum er ávallt vísað til „veðmála á internetinu“ en öll meint veðmál leikmanna Montpellier fóru fram með reiðufé í litlum söluturnum.

Saklaus uns sekt er sönnuð

Karabatic var valinn aftur inn í landsliðið undir þeim formerkjum að ekki væri enn búið að kveða upp neinn dóm í málinu gegn honum og því væri hann saklaus þangað til annað kæmi í ljós. Karabatic spilaði ekkert í leiknum gegn Litháen en kom svo inn á á átjándu mínútu í leiknum á móti Tyrklandi og skoraði fjögur mörk þrátt fyrir að hafa ekki spilað handbolta í rúman mánuð.

Landslið Serbíu og Svartfjallalands

„Verði Karabatic fundinn sekur fyrir frönskum dómstólum verðum við að skoða stöðuna upp á nýtt,“ sagði landsliðsþjálfarinn Onesta. Ljóst er að Karabatic hefur marga kosti í stöðunni verði hann fundinn sekur og rekinn úr franska landsliðinu því landslið Serbíu og Svartfjallalands lýstu bæði yfir áhuga sínum á að fá leikmanninn í sínar raðir í síðustu viku.  Ástæðan er sú að Karabatic fæddist í bænum Nis í Serbíu og ólst þar upp til þriggja ára aldurs og föðuramma hans og -afi eru frá Svartfjallalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert