Meistaraliðið Montpellier gerði óvænt jafntefli við lið Sélestat, 30:30, í franska handboltanum í gærkvöld. Athygli vakti að Nikola Karabatic, Dagan Gajic og Issam Tej sneru allir aftur á völlinn í leiknum en þeir hafa verið í leikbanni síðastliðinn einn og hálfan mánuð tengslum við rannsókn lögreglu á meintu veðmálasvindli þeirra.
Þessir þrír leikmenn komust virkilega vel frá sínu og skoruðu um 80% af mörkum Montpellier. Tej skoraði níu mörk úr tíu skotum og Gajic skoraði níu mörk úr ellefu skotum, þar af sex af vítalínunni. Karabatic skoraði sex mörk úr tíu skotum en athygli vakti að hann skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins.
William Accambray, franska stórskyttan í liði Montpellier, gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla en hann nefbrotnaði í landsleik gegn Litháen á dögunum. Fyrirliði Montpellier, Michael Guigou, sagði aðspurður á blaðamannafundi eftir leikinn að leikmennirnir þrír hefðu hegðað sér eins og sannir atvinnumenn inn á vellinum, bæði í leiknum og á síðustu æfingum. Hann bætti við að þeir hafi komið til baka án þess að útskýra það neitt frekar fyrir hópnum, eins og ekkert hafði komið fyrir.
Lið Sélestat náði að jafna á lokasekúndu leiksins með marki frá úkraínska leikmanninum Yuri Petrenko. Sélestat tryggði sér þannig dýrmætt stig í botnbaráttunni en liðið var í tólfta sæti fyrir leikinn. Montpellier komst hinsvegar upp að hlið Nantes á stigatöflunni en liðin eru bæði í fjórða sæti með tíu stig eftir átta umerðir. París er sem fyrr eitt á toppi deildarinnar en liðið hefur þriggja stiga forskot á Chambéry sem er í öðru sæti.