Karabatic fagnað í fyrsta heimaleik

Nikola Karabatic spilaði loks á heimavelli á ný.
Nikola Karabatic spilaði loks á heimavelli á ný. AFP

Frönsku meistararnir í Montpellier lögðu Pays d’Aix að velli, 36:32, á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik kvöld. Þetta var fyrsti heimaleikur Nikola Karabatic eftir að hann sneri aftur úr leikbanni vegna meint veðmálasvindls. Áhorfendur Montpellier fögnuðu honum ákaft í upphafi leiks.

Montpellier hafði sex marka forystu eftir fimmtán mínútna leik. Pays d’Aix minnkaði muninn niður í tvö mörk þegar fimm mínútur voru eftir til leiksloka en þá tók Montpellier aftur við sér. Staðan í hálfleik var 18:14 heimamönnum í vil og þeir héldu þeirri forystu út leikinn. Stórskytturnar William Accambray og Mathieau Grebille gátu ekki tekið þátt í leiknum fyrir hönd Montpellier vegna meiðsla.

Slóvenski hornamaðurinn Dragan Gajic var markahæstur í liði heimamanna með níu mörk. Nikola Karabatic kom næstur með sex mörk. Hjá gestunum var slóvenski miðjumaðurinn Borut Oslak markahæstur með sjö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert