Knútur G. Hauksson, formaður Handknattleikssambands Íslands, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs á ársþingi sambandsins sem fram fer í 30. apríl. „Eftir að hafa velt þessu talsvert fyrir mér þá var þetta niðurstaðan að stíga til hliðar. Ég held að nú sé ágætis tími til þess,“ sagði Knútur í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
„Á þessum fjórum árum sem ég hef setið í formannsstól tel ég að miklu hafi verið áorkað. A-landslið karla hefur tekið þátt í öllum stórmótum á tímabilinu. Umgjörð kvennalandsliðsins hefur gjörbreyst og það tekið þátt í þremur síðustu stórmótum, í fyrsta sinn í sögunni. Auk þess þá á það mjög góða möguleika á að komast inn í heimsmeistaramótið sem haldið verður undir lok þessa árs. Þegar ég tók við voru uppi hugmyndir meðal einhverra að leggja kvennalandsliðið niður. Við fórum öfuga leið sem hefur sýnt sig að var rétt ákvörðun,“ segir Knútur og bætir við að á þessum tíma hafi einnig mörg yngri landslið náð inn í lokakeppni EM og HM.
Viðtalið við Knút er að finna í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.