Stella óbrotin - Líklega ekki með á morgun

Stella Sigurðardóttir er algjör lykilmaður í liði Fram.
Stella Sigurðardóttir er algjör lykilmaður í liði Fram. mbl.is/Ómar

Handknattleikskonan Stella Sigurðardóttir verður sennilega ekki með Fram á morgun þegar liðið mætir ÍBV í öðrum undanúrslitaleik liðanna í N1-deildinni.

Stella meiddist á þumalfingri hægri handar og var óttast að bein hefði brotnað. Svo er þó ekki og að sögn Halldórs Jóhanns Sigfússonar þjálfara er vonast til að hún geti spilað þriðja leikinn við ÍBV, á miðvikudaginn.

„Hún er ekki brotin en tognaði illa og það blæddi inn á lið. Þetta lítur ekki vel út fyrir hana hvað varðar morgundaginn en tíminn verður að leiða í ljós hvernig þetta þróast. Við eigum von á að þetta lagist hratt dag frá degi, en þetta getur verið erfitt viðureignar,“ sagði Halldór.

„Þetta eru mjög góðar fréttir náttúrulega. Aðalatriðið var að hún væri ekki brotin því þá hefði tímabilið verið búið hjá henni. Ég á síður von á að hún verði með á morgun og þá verða aðrir að stíga upp. Þriðji leikurinn er svo á miðvikudaginn þannig að það eru nokkrir dagar í hann,“ bætti Halldór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert