Ljóst er að talsverðar breytingar verða á liðunum sem léku til úrslita á Íslandsmóti karla í handknattleik, Íslandsmeisturum Fram, og silfurliði Hauka þegar næsta keppnistímabil hefst. Þjálfara beggja liða hverfa til annarra verkefna og nærri tugur leikmanna liðanna annað hvort hættir eða rær á önnur mið.
Fram:
Einar Jónsson, þjálfari, flytir til Noregs í sumar og tekur við þjálfun kvennaliðs Molde. Með honum flytur sambýliskonan Kristín Clausen sem leikið hefur með Stjörnunni árum og saman og var m.a. í Garðabæjarliðinu sem tapaði í fimm leikja úrslitarimmu við Fram á sunnudag.
Við þjálfun Fram-liðsins tekur Guðlaugur Arnarsson.
Sigurður Eggertsson er ákveðinn í að hætta að leika handknattleik.
Magnús Gunnar Erlendsson reiknar ekki með að halda áfram að standa í marki Fram eftir að hafa staðið vaktina árum saman.
Haraldur Þorvarðarson staðfesti á Facebook síðu sinni seint í gærkvöldi að hann væri hættur að leika handknattleik eftir 20 ár í meistaraflokki.
Jóhann Gunnar Einarsson ætlar að minnsta kosti að taka sér hlé frá æfingum og keppni á næsta keppnistímabili.
Róbert Aron Hostert leitar fyrir sér um að komast í atvinnumennsku í handknattleik í Evrópu.
Haukar:
Aron Kristjánsson, þjálfari, hættir og snýr sér alfarið að starfi landsliðsþjálfara karla í handknattleik, eftir að hafa sinnt þjálfun beggja liða frá því í haust.
Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, hefur verið ráðinn næsti þjálfari Hauka.
Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður, hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið Guif frá Eskilstuna. Hann flytur út í sumar.
Gylfi Gylfason lýsti því yfir snemma árs að hann ætlaði að leggja skóna á hilluna við lok leiktíðar eftir langan ferill. Hann lék lengst af með þýsku félagsliðum. Gylfi, eins og Magnús Gunnar markvörður Fram, tók þátt í úrslitarimmu Hauka og Fram um Íslandsmeistaratitilinn fyrir 12 árum.
Freyr Brynjarsson hefur einnig gefið frá sér þá yfirlýsingu að hann sé hættur að leika handknattleik. Freyr ítrekaði það á Facebook síðu sinni í gærkvöldi. Freyr lék 17 keppnistímabil í meistaraflokki og varð sigursæll, fyrstu árin með Val en síðan með Haukum. Freyr birti neðangreint yfirlit yfir ferilinn á Fasbókarsíðu sinni í gærkvöldi:
„Ömurlegt að tapa.
17 tímabil í boltanum og 17 titlar -
Íslandsmeistari
1998 - 2005 – 2008 - 2009 – 2010
Deildarmeistari
2005 – 2008 - 2009 – 2010 – 2012 – 2013
Bikarmeistari
1998 – 2010 – 2012
Deildarbikarmeistari
2006 – 2010 – 2012
Fyrsta tímabilið síðasta tímabilið
1996 - 1997 2012 - 2013
Verður maður bara ekki að vera sáttur við það.“
Við þetta má bæta að Freyr var þrisvar sinnum í sigurliði í meistarakeppni HSÍ, sem fram fer á haustin, en þar mætast Íslandsmeistarar og bikarmeistarar keppnistímabilsins á undan.