Handknattleikssamband Íslands og Olís hafa gert með sér samning um að Olís verði aðalstyrktaraðili í úrvalsdeildum karla og kvenna í Íslandsmótinu í handbolta næstu þrjú árin. Deildin mun því heita Olís-deildin.
Í fréttatilkynningu frá HSÍ segir meðal annars;
Að sögn Sigurðar K. Pálssonar, markaðsstjóra Olís, hafði HSÍ samband við félagið með skömmum fyrirvara og var strax vel tekið enda hafi Olís og ÓB tengt sig vel við handboltann og íslenska landsliðið á undanförnum árum. „Olís hefur allt frá stofnun verið duglegt við að styrkja samfélagsverkefni af ýmsum toga og handboltinn er kærkomin viðbót. Eitt af markmiðum samningsins er að efla handboltann á Íslandi og fjölga iðkendum. Allt sem stuðlar að hreysti, heilbrigði og heilnæmari lífsstíl fyrir einstaklinga og samfélagið allt fellur mjög vel að stefnu fyrirtækisins. Handboltinn er líka okkar þjóðaríþrótt og við hlökkum mikið til samstarfsins við HSÍ.“