Fúll heim af lokahófi en fékk svo ólympíusilfur

Björgvin Páll Gústavsson hefur jafnan verið aðalmarkvörður Íslands frá árinu …
Björgvin Páll Gústavsson hefur jafnan verið aðalmarkvörður Íslands frá árinu 2008. mbl.is/Golli

Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður í handknattleik birti í dag pistil á heimasíðu sinni um baráttu sína fyrir því að komast í landsliðið.

Í pistlinum kemur meðal annars fram að Björgvin hafi vorið 2008 gengið fúll heim í rigningu af lokahófi HSÍ eftir að hafa ekki verið valinn besti markvörður tímabilsins hér heima. Raunar var hann ekki einu sinni í hópi þriggja bestu. Síðar sama ár átti hann stóran þátt í því að landsliðið ynni til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking.

„Daginn eftir rigningarlabbið mikla mætti ég í gymmið og tók á því og hélt áfram að hugsa allt sem rann í gegnum kollinn kvöldið áður... Ég ætlaði að gera þetta að sumarinu mínu og þar með að sumri landsliðsins í leiðinni. Það sem að gerist svo á næstu 2 mánuðum er lyginni líkast,“ skrifaði Björgvin.

Gummi hafði óbilandi trú á mér

„Ég er valinn í landsliðið af Gumma Gumm sem að hafði óbilandi trú mér og hafði til að mynda valið mig í landsliðið í fyrsta skipti á sínum tíma árið 2003. Ég hef aldrei æft eins vel á ævinni eins og þetta sumar en það sem mikilvægara var að ég hef aldrei verið eins fókuseraður á sjálfan mig og liðsmennina í kringum mig. Ég studdi við vel við bakið á hinum markmönnum liðsins til að liðið myndi ná sínum marmiðum og svo að ég fengi líka stuðning frá þeim. Liðið fór til Póllands í undankeppni Ólympíuleikana þar sem að við fórum áfram eftir ævintýralegan sigur á Svíum og Hreiðar markvörður lokaði hreinlega rammanum. Þarna var ég í stúkunni sem einn af stuðningsmönnum okkar og sjaldan verið ánægðari og stoltari af stráknunum okkar. En mig langaði í meira! Mig langaði að standa þarna í rammanum líka...

Það sem að tók við voru strangar æfingar og nokkrir æfingaleikir en það má segja að æfingaleikur við Spán í Vodafone höllinni hafi orðið þess valdandi að ég fékk sæti í íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum 2008. Ól voru mitt fyrsta stórmót og þarf ekki að fara mörgun orðum um hvernig það blessaða mót gekk... en verðlaunapeningur á Ólympíuleikum er eitthvað sem að mig óraði ekki fyrir,“ skrifaði Björgvin.

Pistil Björgvins má lesa með því að smella hér.

Björgvin Páll segir Guðmund Guðmundsson þjálfara hafa haft á sér …
Björgvin Páll segir Guðmund Guðmundsson þjálfara hafa haft á sér óbilandi trú. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert