Björgvin hafði betur í Íslendingaslag

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. AFP

Bergischer vann sex marka sigur á Emsdetten, 33:27, í nýliða- og Íslendingaslag í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag.

Íslendingarnir í liði Emsdetten voru frábærir en Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk og þeir Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ernir Hrafn Arnarson fjögur mörk hvor.

Landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson stóð vaktina í marki Bergischer og stóð sig vel en hann hefur verið mjög góður á tímabilinu. Arnór Gunnarsson er enn frá vegna meiðla hjá Bergischer. Emsdetten er á botni deildarinnar en Bergischer í 10. sæti.

Annar Íslendingaslagur fór fram en í honum vann Eisenach sigur á Minden, 28:26. Eisenach er einnig nýliði í deildinni en liðinu er stýrt af Aðalsteini Eyjólfssyni.

Hannes Jón Jónsson og hornamaðurinn Bjarki Már Elísson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Eisenach en varnartröllið Vignir Svavarsson tvö mörk fyrir Minden.

Þá mörðu Refir Dags Sigurðssonar 29:28-útisigur gegn Lübbecke en sigurmarkið skoraði Mattias Zachrisson um leið og leiktíminn rann út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert