Daníel Freyr frá keppni næstu mánuði

Daníel Freyr spilar ekki handbolta á næstunni.
Daníel Freyr spilar ekki handbolta á næstunni. mbl.is/Kristinn

Daníel Freyr Andrésson, markvörður FH, sem Morgunblaðið valdi besta markvörð fyrri hluta Olís-deildar karla í handbolta, spilar ekki næstu mánuðina vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Hafnarfjarðarliðsins gegn ÍBV síðastliðinn sunnudag.

„Hann braut bátsbein í hendi. Þetta er lítið bein við lófann. Hann varði skot og fann fyrir verk en kláraði leikinn. Þetta eru ekki góð meiðsli fyrir handboltamenn og nánast öruggt að hann þurfi að fara í aðgerð,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari FH, við mbl.is nú í morgun.

Eins og staðan er núna lítur út fyrir að Daníel Freyr verði frá í þrjá mánuði en það miðast við að hann fari í aðgerð. Fari hann ekki í aðgerð taka svona meiðsli um sex vikur að gróa.

„Þetta leit ekki vel út á myndunum. Þeir sögðu að það væri 99 prósent líkur á að hann þurfi að fara í aðgerð en það á sérfræðingur eftir að skoða þetta,“ sagði Einar Andri.

Slæmt fyrir landsliðið

Þetta er mikið áfall fyrir markvörðinn unga sem hefur sett stefnuna á atvinnumennsku. Þá var hann einnig valinn í 28 manna landsliðshóp Arons Kristjánssonar í gær sem telur nú 27 leikmenn vegna meiðsla Daníels. Ekki er hægt að kalla inn annan í hans stað.

„Þetta voru blendnar tilfinningar fyrir Danna. Hann er valinn í hópinn og svo seinna um daginn kemur þetta í ljós. Ennfremur er þetta vont fyrir Aron því hópurinn sem hann valdi er endanlegur og ekki hægt að velja annan,“ sagði Einar Andri.

Þurfa annan markvörð

Komist Daníel Freyr í aðgerð fyrir jól, sem Einar Andri telur ólíklegt, verður markvörðurinn frá fram í mars en verði aðgerðin ekki gerð fyrr en á næsta ári gæti hann verið frá keppni fram í apríl.

„Við þurfum markvörð,“ sagði Einar Andri en hinn gamalreyndi Magnús Sigmundsson verður hinum unga Ágústi Elí Björgvinssyni til halds og traust sem ver markið í deildabikarnum í kvöld, og kannski á morgun, sem og í bikarleiknum gegn ÍH í næstu viku.

„Við erum ekki komnir svo langt með að skoða hvern við fáum. Við erum bara kortleggja hvað við gerum. Við erum með góða strax í Ágústi Elí en það þarf að vera með tvo,“ sagði Einar Andri Einarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert