Handknattleiksmaðurinn Róbert Aron Hostert, leikmaður ÍBV, hélt utan til Danmerkur í morgun. Erindi hans þar er að ræða við forráðamenn danska úrvalsdeildarliðsins Mors/Thy en félagið er eitt af mörgum sem vilja fá þennan snjalla handboltamann til liðs við sig. Vitað er að áhuga þýska liðsins Hannover-Burgdorf á Aroni, þar sem hann var við æfingar síðastliðið vor, og þá eru fleiri þýsk lið og dönsk með leikmanninn undir smásjánni.
„Það er margt í gangi hjá mér og nú þarf maður bara að velja rétta liðið. Ég ætla að sjá hvað kemur út úr þessu hjá Mors/Thy og það gæti verið góður kostur að fara til liðsins. Ég vil fara að klára þessi mál en maður þarf að vanda valið,“ sagði Róbert Aron við Morgunblaðið.
Róbert Aron er 23 ára gamall og varð Íslandsmeistari með Fram á síðustu leiktíð en hann gekk í raðir nýliða ÍBV í sumar og samdi við Eyjamenn til eins árs. Það er ekki síst fyrir góða frammstöðu Róberts að nýliðunum hefur vegnað vel í vetur en þeir eru í öðru sæti Olís-deildarinnar.
Yfirgnæfandi líkur eru á að Róbert Aron haldi út í atvinnumennsku í sumar og ekki er ósennilegt að Danmörk verði fyrir valinu hjá þessum bráðskemmtilega leikmanni sem hefur leikið tvo leiki með íslenska A-landsliðinu .