Ágúst ráðinn þjálfari Víkings til 3 ára

Ágúst Jóhannsson
Ágúst Jóhannsson Ernir Eyjólfsson

Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari Víkings í meistaraflokki karla og yfirmaður handknattleiksmála hjá félaginu. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið en mun engu að síður þjálfa meistaraflokk karla hjá HK til loka keppnistímabilsins.

Ágúst hætti á dögunum sem þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins SönderjyskE í handknattleik kvenna og ákvað að flytja aftur heim til Íslands. Ágúst er jafnframt landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik og hefur mikla reynslu af þjálfun bæði á Íslandi og erlendis.

„Við erum afar ánægð og stolt að fá Ágúst sem þjálfara meistaraflokks Víkings en hann er einn reynslumesti handknattleiksþjálfari landsins,“ segir Björn Einarsson, formaður Víkings, í tilkynningu. „Víkingur er eitt mesta afreksfélag landsins í handbolta og ætlunin er að koma liðinu aftur á hæsta stall í nánustu framtíð. Ágúst hafði úr ýmsum möguleikum að velja en hann valdi Víking, sem er auðvitað mjög ánægjulegt og gefur okkur mikla trú á því sem félagið er að gera og sýnir metnaðinn í félaginu.“

Ágúst mun einnig verða yfirmaður handknattleiksmála hjá Víkingi og koma að öllu skipulagi og hugmyndafræði í handboltanum hjá félaginu. Björn segir stóra og öfluga sveit bakhjarla á bak við handboltann hjá félaginu og framtíðin sé björt.

Sjálfur segist Ágúst hlakka til að starfa í Víkinni. „Eftir að hafa rætt við forráðamenn Víkings og fengið að heyra hvernig þeir vilja byggja handboltann upp hjá félaginu í framtíðinni ákvað ég að slá til. Víkingur á eina stærstu og fallegustu söguna í handboltanum á Íslandi.“ Hann tekur formlega við liðinu 1. maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert