Fjölgun í tíu blasir við

Valsmaðurinn Geir Guðmundsson.
Valsmaðurinn Geir Guðmundsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Margt bendir til þess að liðum verði fjölgað úr átta í tíu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olís-deildinni, á næsta keppnistímabili.

Á síðasta þingi Handknattleikssambands Íslands var samþykkt breyting á lögum þannig að opnað var fyrir að liðum í úrvalsdeildinni yrði fjölgað um tvö, úr 8 í 10. Var það gert eftir miklar umræður innan handboltahreyfingarinnar í undanfara þingsins og á þinginu sjálfu. Hluti hreyfingarinnar vildi að fjölgað yrði strax á síðasta hausti í 10 lið. Fyrir því var ekki almennur hljómgrunnur og þetta var niðurstaðan.

Samþykkt var að ef það væru 18 liða eða fleiri skráð til keppni í úrvalsdeild og 1. deild tvö tímabil í röð þá ætti að fjölga liðum í úrvalsdeild í 10. Í vetur taka 19 lið þátt, 8 í efstu deild og 11 í næstefstu. Eftir athugun Morgunblaðsins í gær bendir flest til þess að a.m.k. átján lið verði skráð til leiks í meistaraflokki karla á næsta keppnistímabili. Það þýðir að fjölgað verður í úrvalsdeildinni um tvö lið.

Sjá ítarlega fréttaskýringu um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert