Stjarnan komst í kvöld í úrslit Íslandsmóts kvenna í handknattleik eftir sigur á Gróttu, 23:21 í spennandi leik í Mýrinni í Garðabæ. Stjarnan vann þar með einvígi liðanna í undanúrslitum 3:0 og mætir annað hvort Val eða ÍBV í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.
Stjarnan mætti eiginlega ekki almennilega til leiks fyrr en eftir um 18 mínútur, en liðsmenn Gróttu voru aftur á móti ákveðnir í upphafi leiks og Íris Björk Símonardóttir fór vel af stað í marki Seltirninga og hafði varið 8 skot eftir korter. Í stöðunni 5:9 fyrir Gróttu tók Stjarnan leikhlé sem virtist takast vel upp því Stjarnan skoraði næstu fimm mörk og komst yfir 10:9. Grótta náði þó vopnum sínum aftur fyrir hálfleik og hafði þriggja marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, 14:11.
Stjarnan náði þó að snúa taflinu sér í vil og komst í 20:16 um miðjan seinni hálfleik en Grótta neitaði að gefast upp og náði að jafna metin í 20:20. Florentina Stanciu markvörður Stjörnunnar reyndist dýrmæt á lokasprettinum og varði oft vel. Stjarnan vann að lokum tveggja marka sigur, 23:21 er komin í úrslit Íslandsmótsins.