Frábær síðari hálfleikur skóp sigurinn

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í íslenska liðinu í sigurleiknum við …
Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í íslenska liðinu í sigurleiknum við Hollendinga ásamt Díönu Dögg Magnúsdóttur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, vann hollenska landsliðið í morgun, 19:16, á Opna Evrópumótinu í Gautaborg. Íslenska liðið var marki undir í hálfleik, 11:10, en sneri leiknum sér heldur betur í hag í þeim síðari og náði mest sex marka forskoti, 18:12. 

Vörn íslenska liðsins var frábær í síðari hálfleik og að baki hennar fór Elín Jóna Þorsteinsdóttir á kostum. Hún varði alls 16 skot í leiknum og var 50% markvörslu. 

Díana Dögg Magnúsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir voru markahæstar með fimm mörk hvor. Hulda B. Tryggvadóttir, Thea Imani Sturludóttir og Þuríður Guðjónsdóttir skoruðu tvö mörk hver og Arna Þyri Ólafsdóttir, Elena Birgisdóttir og Sigrún Ása Ásgrímsdóttir skoruðu eitt mark hver.

Síðasti leikur íslenska liðsins í keppninni um níunda til tólfta sætið í mótinu verður við landslið Slóvaka á morgun. Slóvakar lögðu Pólverja í morgun með eins marks mun, 22:21.

Eftir tvær umferðir í riðlinum eru liðin fjögur jöfn með tvö stig hvert. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert