„Ákvörðun IHF kemur okkur spánskt fyrir sjónir,“ sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, í dag að bjóða Þjóðverjum keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem fram fer í Katar í janúar á næsta ári eftir að Eyjaálfa afþakkaði sæti sitt í keppninni.
Samkvæmt bréfi sem Handknattleikssamband Evrópu sendi IHF eftir að undankeppni heimsmeistaramótsins lauk um miðjan síðasta mánuð og mbl.is hefur undir höndum kemur skýrt fram að Ísland sé fyrsta varaþjóð frá Evrópu ef einhver þeirra liða sem tryggt hafa sér keppnisrétt heltist úr lestinni. Ungverjar séu önnur varaþjóð og Serbar sú þriðja. Þar með er farið eftir röð þjóðanna á síðasta Evrópumeistaramóti, sem haldið var í Danmörku og þar sem fjórar efstu þjóðirnar tryggðu sér farseðilinn á HM í Katar.
Einar segir að eftir því sem næst verði komist sé ekkert í lögum IHF hvernig bregðast eigi við ef ein heimsálfa afþakki sæti sitt á HM eins og Eyjaálfa hefur gert nú. Þar af leiðandi líti út fyrir að um geðþóttaákvörðun sé að ræða af hálfu framkvæmdastjórnar IHF að bjóða Þjóðverjum keppnisrétt á þeim forsendum að þeir hafi náð bestum árangri á síðasta heimsmeistaramóti af þeim þjóðum sem hafa ekki þegar tryggt sér þátttökurétt. Þjóðverjar höfnuðu í 5. sæti á HM á Spáni í fyrra.
„Við höfum ekki fengið neitt bréf eða opinberlega staðfestingu frá IHF vegna þessa máls, aðeins lesið fréttir á netmiðlum í dag og síðan séð fréttatilkynningu sem IHF sendi frá sér í dag, m.a. til íslenska fjölmiðla. Þar eru ekki færð nein rök fyrir ákvörðun framkvæmdastjórnar IHF,“ segir Einar.
„Núna bíðum við eftir staðfestingu á þessari ákvörðun og hvar menn hjá IHF geta vísað í lög eða reglugerð um heimsmeistaramót máli sínu til stuðnings,“ segir Einar og vísar til þess að hver heimsálfa eigi fyrir fram ákveðinn fjölda sæti á heimsmeistaramótum. „Nú var sætið tekið af Eyjaálfu. Þá veltir maður fyrir sér hvaða heimsálfa eigi þá sæti þeirrar heimsálfu. Ef það er Evrópa á Ísland sætið, það er á hreinu samkvæmt bréfi EHF sem sérstaklega var sent til IHF eftir að undankeppninni lauk í síðasta mánuði. Ef það er einhver önnur heimsálfa sem á sætið getum við ekkert sagt.
Ástralir vonsviknir með ákvörðun IHF
Ef vafi leikur á hvaða heimsálfa á að fá sæti Eyjaálfu teljum við forsvarsmenn Handknattleikssambandsins að eðlilegt sé að kallað verði saman heimsálfumót með þeim þjóðum sem eru næst inn í mótið þar sem leikið væri um sæti á heimsmeistaramótinu. Ef kæmi til þeirrar keppni kæmi ein þjóð frá Evrópu, Asíu, Afríku og Ameríku. Í slíkri keppni myndi Ísland einnig fá sæti,“ segir Einar sem reiknar með að næstu dagar fari í að fá botn í þetta á mál. Því verði hins vegar fylgt af fullum þunga.
„Ég tel að við eigum vísan stuðning í þessum máli frá Handknattleikssambandi Evrópu, þar sem sambandið hefur gefið opinberlega út með tilkynningu til IHF 16. júní að Ísland sé fyrsta varaþjóð frá Evrópu inn á heimsmeistaramót í ljósi þess að íslenska landsliðið varð í fimmta sæti á Evrópumeistaramótinu í Danmörku í janúar,“ segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands.