Óskar Bjarni Óskarsson verður aðalþjálfari meistaraflokks kvenna í handbolta í Val í Olís-deildinni næsta vetur. Morgunblaðið greindi frá því fyrir rúmum mánuði að ráðningin lægi í loftinu, en Ómar Ómarsson, formaður handknattleiksdeildar Vals, staðfesti þessar fréttir svo í samtali við Morgunblaðið í gær.
Talsverðar breytingar verða á Valsliðinu milli tímabila og lykilleikmenn úr Íslandsmeistaraliði síðustu leiktíðar horfnir á braut. „Við erum að klára að koma saman leikmannahóp fyrir næstu leiktíð. Við erum að vinna núna í því að byggja upp lið til framtíðar,“ sagði Ómar. Enginn leikmaður er formlega genginn í raðir Vals frá síðustu leiktíð en Ómar staðfesti þó að viðræður við Milica Kostic, tvítugan markvörð hjá Buducnost í Svartfjallalandi, væru langt komnar. „Hún var á reynslu hjá okkur og okkur líst vel á hana. Hún vill líka koma til Vals. Við eigum bara eftir að hnýta nokkra lausa enda,“ sagði Ómar. thorkell@mbl.is