Þýska landsliðið fær keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í Katar, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Alþjóðahandknattleikssambandinu, IHF, í dag. Ástralska landsliðið hefur dregið sig úr keppni og því ákvað IHF að kalla inn varaþjóð frá Evrópu. Íslenska landsliðið, sem er fyrsta varaþjóð frá Evrópu eftir undankeppnina í síðasta mánuð,i er hundsað, samkvæmt þessu.
Þýska landsliðið varð fyrir valinu þar sem það náði bestum árangri á HM á Spáni 2013 af þeim þjóðum sem ekki tryggðu sér sæti á HM í gegnum forkeppni sem fram fór í síðasta mánuði. Þýska landsliðið varð í 5. sæti á HM á Spáni.
IHF virðist þar með hundsa tilkynningu frá Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, sem gefin var út að lokinni undankeppninni í síðasta mánuði þar sem kemur fram að íslenska landsliðið væri fyrsta varaþjóð frá Evrópu inn á HM, þar á eftir Ungverjar og síðan Serbar.
Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is rétt áðan að hann hafi verið að fá óstaðfestar fregnir af málinu fyrir fáeinum mínútum. Því gæti hann ekki tjáð sig um málið strax. Þess má geta að yfirlýsing Alþjóðahandknattleikssambandsins sem vitnað er í að ofan hafði ekki borist HSÍ þegar mbl.is náði tali af Einari þótt hún væri komin í pósthólf íþróttadeildar mbl.is.