Arne Elovsson, varaforseti Handknattleikssambands Evrópu, EHF, sem er einn átján manna sem eiga sæti í ráði Alþjóðahandknattleikssambandsins (IHF council), segir að við upphaf fundar ráðsins í Zagreb á þriðjudaginn hafi verið lögð fram lagabreyting frá framkvæmdastjórn IHF sem varð til þess að Evrópa átti ekkert meiri rétt á að fá þátttökurétt á heimsmeistaramóti karla í Katar á næsta ári en aðrar heimsálfur, að Eyjaálfu undanskilinni.
Þar af leiðandi hafi regla 2.8, sem mikið hefur verið vitnað til, þar sem segir að varaþjóð á HM skuli koma frá álfu heimsmeistaranna, ekki verið lengur í gildi þegar kom að því að fá botn í hver tæki sæti Eyjaálfu á HM 2015.
Af orðum Elovssons má ráða að ráðið sé aðeins afgreiðslunefnd fyrir framkvæmdastjórn IHF sem í sitja fimm manns og ráða öllu sem þeir vilja ráða varðandi handknattleik.
„Fyrsta mál á fundi ráðsins var að afgreiða nýjar reglur sem framkvæmdastjórn IHF hafði unnið að frá því í vor þess efnis að ráðið gæti hafnað þátttöku frá þjóðum sem hefðu svo veikt landslið að það væri slæmt fyrir ímynd heimsmeistaramóta. Sú tillaga var samþykkt,“ sagði Elovsson í samtali við Morgunblaðið síðdegis í gær.
Sjá nánar umfjöllun um afgreiðslu þessa máls á vettvangi IHF í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.