Þórir: Mikið breyst á níu árum

„Við höfum verið í vandræðum með að hafa fullt lið á æfingum upp á síðkastið vegna meiðsla og veikinda en það er langt tímabil framundan svo við höfum nægan tíma til þess að laga það sem þarf að laga," sagði Þórir Ólafsson, aðstoðarþjálfari og leikmaður Stjörnunnar, eftir að liðið tapaði með sjö marka mun, 29:22, í fyrir Aftureldingu í fyrstu umferð Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í kvöld. 

„Ég er afar jákvæður eftir þennan leik þrátt fyrir tapið. Margt var ágætt í leik okkar þótt vissulega megi margt bæta," segir Þórir sem lék sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni hér á landi í níu ár. 

„Það hefur mikið breyst á þessum tíma og varla nokkur leikmaður sem ég þekki," sagði Þórir léttur í bragði en hann lék minna með Stjörnuliðinu en margir áttu von á. „Við erum með marga góða stráka í þessari stöðu og við skiptum leiktímanum með okkur. Ég verð að berjast fyrir sætinu eins og aðrir," sagði Þórir Ólafsson, leikmaður Stjörnunnar, en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert