Pétur Júníusson, varnarmaðurinn sterki og línumaðurinn öflugi hjá Aftureldingu, meiddist illa á ökkla snemma leiks í toppleiknum við Val í Olís-deild karla að Varmá í gærkvöldi.
Hann fór í ítarlega skoðun í gærkvöldi og rétt áður en Morgunblaðið fór í prentun á tólfta tímanum í gærkvöldi staðfesti Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, að liðband í vinstri ökkla væri slitið og lítillega brotið upp úr beini í ökklanum. Þetta kom í ljós eftir að ökklinn hafði verið segulómaður. Pétur mun síðan gangast undir ítarlegri skoðun á föstudaginn.
„Pétur verður ekkert meira með okkur á þessu ári, það er ljóst,“ sagði Einar Andri en framundan er leikjatörn hjá Aftureldingu eins og öðrum liðum í deildinni. Fimm leikir eru á dagskrá í deildinni næsta mánuðinn auk eins leiks í bikar.
Pétur hefur leikið eitt stærsta hlutverkið í Aftureldingarliðinu sem er í toppsæti Olís-deildarinnar. „Nú reynir á breiddina í leikmannahópnum hjá mér,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.