Ísland og Sádi Arabía fá sætin tvö á HM karla í handbolta í Katar, sem Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin gáfu frá sér fyrir skömmu.
Þetta hefur Hassan Moustafa forseti IHF staðfest í sjónvarpsviðtölum. Ísland er sagt taka sæti Sameinuðu arabísku furstadæmana í C-riðli og yrði samkvæmt því í riðli með Frakklandi, Svíþjóð, Alsír, Tékklandi og Egyptalandi.
Framkvæmdastjórn alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, kom saman til fundar í dag þar sem taka átti ákvörðun um hvað gera ætti vegna sætanna sem Barein og SAF gáfu frá sér vegna pólitískra deilna. Handknattleikssambönd þjóðanna tveggja höfðu hins vegar hætt við að sniðganga mótið og tilkynntu um það í vikunni.
IHF hefur ekki sent frá sér neinn rökstuðning vegna málsins enn sem komið er.