Eftir vandlega íhugun hefur landsliðsmaðurinn í handknattleik, Sverre Andreas Jakobsson, ákveðið að afþakkað tilboð frá þýska 1. deildarliðinu Lemgo. Félagið hefur á síðustu dögum sótt hart að Sverre um að hann gengi til liðs við félagið sem nú leitar logandi ljósi að leikmönnum til þess að styrkja sveit sína.
Sverre sagði í samtali við mbl.is í morgun að hann sjái sér ekki fært að söðla um á miðju keppnistímabili. „Ég er skuldbundinn á Akureyri bæði í vinnu, sem ég er nýbyrjaður í, og hjá Akureyri handboltafélagi auk þess það hefði mikið rask í för með sér fyrir fjölskylduna ef ég færi út til Þýskalands til þess að leika með Lemgo fram undir mitt næsta ár," segir Sverre. „Eins og mál standa þá get ég ekki tekið þessu tilboði og er sáttur við það þótt það hafi vissulega togað í mig og þess vegna velti ég því fyrir mér. Það má líklegt telja að þetta hafi verið síðasta tækifærið til þess að leika í atvinnumennsku í handbolta."
Lemgo situr um þessar mundir í neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar ásamt nýliðum Friesenheim með sex stig eftir 15 leiki, Ljóst er að forráðamenn Lemgo eru tilbúnir að leggja talsvert í sölurnar til þess að öngla í leikmenn til þess að styrkja liðið. Að sögn Sverres hefur Lemgo sent honum ítrekuð tilboð síðustu daga og þar sem launaliðurinn hefur hækkað í hvert skipti.
Sverre flutti heim til Akureyrar í sumar eftir fimm ára veru í Þýskalandi í herbúðum Grosswallstadt þar sem hann var lengst af fyrirliði. Hann ætlar nú sem fyrr að einbeita sér að því að leika með Akureyri handboltafélagi þar sem er í mörg horn að líta og margir leikmen á sjúkralista um lengri eða skemmri tíma. „Ég hef notið þess að leika með Akureyri í vetur og mun gera það áfram af fullum krafti og áhuga," segir Sverre Andreas Jakobsson.