Elías Már Halldórsson leikur í dag sinn síðasta heimaleik fyrir Akureyri Handboltafélag en hann hefur ákveðið að rifta samningi sínum við félagið af persónulegum ástæðum, samkvæmt heimildum mbl.is.
Elías Már kom til Akureyrar frá Haukum í sumar eftir að hafa verið lykilmaður hjá Hafnarfjarðarfélaginu undanfarin ár. Elías er þrítugur, örvhentur hornamaður og skytta, og lék áður með HK, Stjörnunni, þýska liðinu Empor Rostock og norsku liðunum Haugaland og Arendal.
Elías er í leikmannahópi Akureyrar gegn Fram í dag en hann hefur skorað 33 mörk í 13 leikjum fyrir liðið í vetur. Síðasti leikur hans með Akureyri verður gegn FH á fimmtudag.