„Staðráðinn að kveðja með sigri“

Elías Már Halldórsson skorar eitt af átta mörkum sínum í …
Elías Már Halldórsson skorar eitt af átta mörkum sínum í dag, en hann hefur fengið samningi sínum við félagið rift. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Elías Már Halldórsson leikmaður Akureyrar spilaði sinn síðasta heimaleik með liðinu í dag þegar Akureyri vann Fram 31:24 í Olísdeild karla í handbolta. Eins og greint var frá á mbl.is í dag hefur Elías Már fengið sig lausan undan samningi sínum og mun kveðja liðið í Hafnarfirði á fimmtudag þegar FH fær norðanmenn í heimsókn. Elías stóð vel fyrir sínu í dag og kvaddi með átta mörkum.

Hann var sáttur í leikslok og gaf sér tíma í létt spjall við mbl.is á meðan hann svolgraði í sig kærkominn svaladrykk. „Þetta var ágætisleikur hjá okkur, mun betra en í síðustu leikjum. Ég fann mig vel og þegar við örvhendu mennirnir vorum að spila bæði vörn og sókn þá fannst mér ég finna betri takt í mínum leik og þá fór allt að ganga betur. Þetta var nánast í fyrsta sinn í vetur sem þetta hefur verið svona,“ sagði Elías.

„Mér hefur gengið best þegar ég fæ að spila vörnina líka. Ég var staðráðinn í að spila vel í dag og kveðja stuðningsmennina með sigri. Það gekk eftir. Það má segja að við höfum klárað leikinn fyrra kortérið í seinni hálfleik en við slökuðum full mikið á eftir það. Við höfum lítið verið að leiða í síðustu leikjum og þess vegna duttum við líklega aðeins niður. Það voru batamerki á liðinu í dag en ég held að menn þurfi virkilega að nota hléið sem kemur í deildinni í janúar til að tjasla mönnum saman, ef liðið ætlar sér eitthvað í deildinni eftir áramót.“

Um brottför sína vildi Elías sem minnst ræða. „Þetta hefur verið ágætt, svo sem. Ég er mest þakklátur fyrir að hafa kynnst öllum þeim frábæru strákum sem eru í liðinu en því miður þá virkaði þetta ekki og ég ætla ekkert að útskýra það neitt frekar. Nú er það bara lokaleikurinn fyrir jól gegn FH. Þar ætlum við að vinna.“

Svo mörg voru þau orð en Akureyringar mega vart við því að missa frá sér menn enda hálft liðið á meiðslalistanum eins og staðan er núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert