Ólafur Stefánsson mun ekki taka við meistaraflokki Vals í handknattleik eftir áramót eins og um var rætt en Jón Kristjánsson þjálfari Vals í handknattleik karla mun stíga til hliðar eins og gert var ráð fyrir þegar hann tók við liðinu tímabundið í haust. Óskar Bjarni Óskarsson sem hefur verið viðloðandi Valsliðið mun taka við aðalþjálfun liðsins.
Jón verður þó Óskari Bjarna til halds og traust eftir því sem tími gefst en þá mun Heimir Ríkarðsson einnig koma inn í þjálfarateymið. Þetta sagði Jón við mbl.is nú síðdegis.