Hildigunnur til Molde - „Margt gengið á“

Hildigunnur Einarsdóttir er búin að skipta um lið í Noregi …
Hildigunnur Einarsdóttir er búin að skipta um lið í Noregi eftir að hafa verið ósátt við stöðu sína hjá Tertnes. mbl.is/Golli

Hildigunnur Einarsdóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur yfirgefið herbúðir norska úrvalsdeildarliðið Tertnes og skrifaði í morgun undir samning við B-deildarliðið Molde sem Einar Jónsson þjálfar. Þetta staðfesti hún við mbl.is í morgun og sagðist hafa verið mjög ósátt við stöðu sína hjá Tertnes.

„Þeir hafa gerst sekir um ítrekuð samningsbrot, bæði hvað varðar íbúð, vinnu og fleira. Ég hugsaði að það væri ekki þess virði að vera á stað þar sem manni liði ekki vel. Ég var hætt að vera sátt þarna og fékk nóg í janúar. Ég hringdi þá í umboðsmanninn minn og athugaði hvort það væri hægt að losna,“ sagði Hildigunnur og segir það ekki skipta máli að Molde sé í deild neðar og að leika undir stjórn Einars hafi haft mikið að segja.

Molde er í öðru sæti deildarinnar og semur Hildigunnur við félagið út tímabilið með möguleika á framlengingu að því loknu. Einnig hafa lið utan Noregs verið í sambandi við hana, nokkuð sem hún ætlar að skoða eftir tímabilið.

Hefði frekar komið heim en verið áfram

Hildigunnur var í herbúðum Tertnes í tvö og hálft ár og segir stöðu sína hjá liðinu hafa farið versnandi með tímanum, en liðið er nú um miðja deild í norsku úrvalsdeildinni. 

„Þegar ég kom fyrst sögðu stelpurnar í liðinu að þjálfarinn væri svolítið hallandi á stelpur sem væru búnar að vera lengi í liðinu. Ég hugsaði að ég mundi bara vinna mér inn sæti en fékk nóg þegar ég sá í janúar, búin að vera í tvö og hálft ár, að samkeppnin hafði bara aldrei verið ósanngjarnari,“ sagði Hildigunnur sem lagði ríka áherslu á að losna þaðan.

„Það var ekki séns að vera í Tertnes áfram svo ef það hefði ekki gengið upp að fara til Molde hefði ég bara komið heim. Nú ætla ég bara að einbeita mér, standa mig vel og koma mér í betra handboltaform. Ég finn út úr næstu skrefum eftir það,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir í samtali við mbl.is í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert