Keppnistímabilinu lokið

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. Ómar Óskarsson

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Gústafsson er orðinn úrkulna vonar um að leika meira með danska úrvalsdeildarliðinu Aalborg Håndbold á þessu keppnistímabili. Ólafur er á leið í þriðju meðferðina í Ósló vegna hnémeiðsla og þótt hún beri árangur þá verður það að teljast kraftaverk ef hann leikur meira með liðinu á tímabilinu.

„Það lítur út fyrir að ég verði ekkert meira með á tímabilinu,“ sagði Ólafur við Morgunblaðið í gær. „Nú er ekkert annað að gera en að horfa til næsta keppnistímabils,“ segir Ólafur sem glímt hefur við meiðsli í hné frá því síðla á liðnu sumri eða fljótlega eftir að hann gekk til liðs við Álaborgarliðið frá Evrópumeisturum Flensburg. Þrátt fyrir ýmsar aðgerðir þá hefur hann ekki fengið bót meina sinna og fyrir vikið leikið miklu færri leiki en til stóð auk þess sem Ólafur hefur ekki getað gefið kost á sér í íslenska landsliðið.

Sin á bak við hnéskelina hægra megin hefur verið að gera Ólafi lífið leitt. Eins og fyrr segir þá hefur hann þegar farið í tvær aðgerðir til Óslóar frá áramótum þar sem stungin eru mörg göt á sinina með von um að þegar hún grær á ný verði bati. Fyrir dyrum stendur þriðja aðgerðin eftir hálfan mánuð. „Það er ómögulegt að segja hvort ég verði að fara aftur,“ sagði Ólafur í gær, sem er skiljanlega orðinn leiður á ástandinu. Til að bæta gráu ofan á svart þá lítur út fyrir að Ólafur verði að gangast undir svipaða aðgerða á vinstra hné einnig þar sem við rannsóknir hefur komið í ljós að sinin þeim megin er einnig í ólagi.

Lengra viðtal er við Ólaf í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert