Valur leggur allt í sölurnar til þess að verja bikarmeistarartitilinn í kvennaflokki í Coca Cola-bikarnum í handknattleik, en félagið hefur unnið hann þrjú síðustu árin. Tveir leikmenn sem lítt hafa komið við sögu hjá kvennaliði Vals síðustu árin hafa dregið fram keppnisskóna í þeim tilgangi að styrkja liðið fyrir undanúrslitaleikinn við Hauka sem hefst í Laugardalshöllinni klukkan 17.15 í dag.
Ágústa Edda Björnsdóttir, fyrrverandi landsliðskona, hefur dregið fram skóna og mætt á þrjár æfingar með Valsliðinu, eftir því sem fram kemur á vef RÚV. Hún verður í liði Vals í leiknum við Hauka. Ágúst Edda lék síðast með Val veturinn 2011 til 2012 en skipti síðan yfir til Stjörnunnar um sumarið og lék 11 leiki með Garðabæjarliðinu leiktína 2012 til 2013.
Hin er Arna Grímsdóttir sem tekið hefur þátt í tveimur deildarleikjum með Val í vetur og skorað tvö mörk. Eftir því sem næst verður komist lék Arna síðast sex leiki með Valsliðinu í efstu deild leiktíðina 2008 til 2009.