Ísland fer ekki í lokakeppnina

Lovísa Thompson er einn leikmanna U17 ára landsliðsins.
Lovísa Thompson er einn leikmanna U17 ára landsliðsins. mbl.is/Ómar

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, komst ekki áfram í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í dag. Íslenska liðið tapaði fyrir tékkneska landsliðinu, 30:29, í lokaleik riðlakeppninnar sem fram fór í Færeyjum. Þar með tapaði íslenska liðið öllum þremur leikjum sínum í mótinu. 

Fyrir leikinn við Tékka í dag átti íslenska liðið möguleika á að komast áfram en sá möguleiki fólst í að leggja Tékka með a.m.k. þriggja marka mun. Það lánaðist ekki.

Viðureignin við Tékka var lengst af jöfn en þó náði íslenska liðið á stundum tveggja marka forskoti en lengra náði það ekki. Lokakaflinn var jafn og spennandi en það voru Tékkar sem hrósuðu sigri og fylgja Rússum eftir í lokakeppnina sem fram fer í Makedóníu í sumar. 

Mörk Íslands: Eyrún Ósk Hjartardóttir  7, Lovísa Thompson 6, Andrea Jacobsen 5, Sandra Erlingsdóttir 5, Þórunn Sigurbjörnsdóttir 4, Mariam Eradze 1, Guðný Þóra Arnarsdóttir 1. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka