Framfaraskref frá síðustu leikjum

„Við fórum með of mikið af opnum færum síðasta stundarfjórðunginn, kannski að þreyta hafi verið farin gera vart við sig," sagði Einar Hólmgeirsson, annar þjálfari ÍR, eftir fjögurra marka tap, 28:24, fyrir Aftureldingu í uppgjöri liðanna í þriðja og fjórða sæti Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í kvöld. 

„Heilt yfir er ég þó nokkuð ánægður með leikinn í kvöld. Með honum tókum við framfaraskref, jafnt í vörn sem sókn, sé tekið mið af síðustu leikjum okkar," sagði Einar. 

Fyrir lokaumferðina þá eru ÍR og FH jöfn að stigum en ÍR stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum við FH verði liðin jöfn. Einar segir að þótt það skipti ekki meginmáli hvort liðið hafni í þriðja eða fjórða sæti þá muni ÍR-ingar fara af fullum krafti í síðasta leikinn gegn Akureyri á heimavelli á fimmtudagskvöldið. 

Jón Heiðar Gunnarsson sneri sig á vinstri ökkla snemma í viðureigninni við Aftureldingu í kvöld. Einar sagði óvíst hversu lengi Jón Heiðar verður að jafna sig. Þá er Björgvin Hólmgeirsson ennþá úr leik hjá ÍR-ingum. Einar vonast til að báðir verði þeir tilbúnir í úrslitakeppnina sem hefst eftir páska. 

Nánar er rætt við Einar Hólmgeirsson á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert