Trúum að við séum bestir

„Það gekk vel hjá okkur. Þegar við eru með fullskipað lið þá trúum við því að við séum með besta liðið á Íslandi," sagði Jón Heiðar Gunnarsson einn leikmanna ÍR eftir að liðið vann Aftureldingu örugglega, 34:28, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handknattleik að Varmá í kvöld.

Með sigrinum komst ÍR yfir í rimmunni, hefur tvo vinninga gegn einum hjá Aftureldingu. ÍR-ingar tryggja sér sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn gegn Haukum ef þeir vinna fjórðu viðureignina við Aftureldingu í Austurbergi á fimmtudaginn. 

„Liðið hefur smollið saman hjá okkur í úrslitakeppninni. Nú erum við allir orðnir nokkuð heilir og farnir að skrölta saman. Um leið þá finnum við taktinn betur og betur með hverjum leiknum. Nú nálgumst við óðum það leikform sem við vorum í fyrir áramótin."

Jón Heiðar segir ÍR-ingar hafi komist á bragðið með sigrinum á Aftureldingu á síðasta laugardag. „Okkur leið vel þegar við vöknuðum í morgun. Það hefur verið góð tilfinning í okkur í allan dag. Okkur leið vel gegn Aftureldingu.

Sóknarleikurinn hjá okkur var góður og með því allra besta sem við höfum sýnt í vetur. Jafnvel þótt við værum manni færri tókst okkur að finna opnanir," sagði Jón Heiðar.

Jón Heiðar segir markmiðið vera að vinna einvígið á heimavelli á fimmtudaginn. „Að sjálfsögðu. Fólk getur fjölmennt í Austurbergið eftir að hafa farið í skrúðgöngu í tilefni sumardagsins fyrsta," sagði Jón Heiðar.

Nánar er rætt við Jón Heiðar á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert