„Ólíklegt að Jóhann Gunnar spili“

Það kemur til með að mæða mikið á Erni Inga …
Það kemur til með að mæða mikið á Erni Inga Bjarkasyni í leiknum gegn ÍR-ingum í dag. mbl.is/Golli

„Jóhann Gunnar fer til sjúkraþjálfara og læknis á eftir en það er ólíklegt að hann spili í dag,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar við mbl.is í dag.

Það er líkur upp á líf eða dauða fyrir Mosfellinga í Austurbergi í dag þegar þeir etja kappi við ÍR-inga í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar. ÍR-ingar eru 2:1 yfir í einvíginu og fari þeir með sigur af hólmi í dag eru þeir komnir í úrslit gegn Haukum um Íslandsmeistaratitilinn.

Mosfellingar urðu fyrir áfalli eftir annan leikinn. Jóhann Gunnar Einarsson besti leikmaður liðsins meiddist á öxl og var ekki með í leiknum á þriðjudaginn og Jóhann Jóhannsson var úrskurðaður í tveggja leikja bann en hann fékk rautt spjald með skýrslu eftir ljótt brot.

„Mínir menn eru 100% klárir og þeir munu svo sannarlega selja sig dýrt í leiknum í dag,“ sagði Einar Andri.

Leikur liðanna hefst í Austurbergi klukkan 16 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert