Ramune heim í Hauka

Ramune Pekarskyte klæðist Haukatreyjunni á ný.
Ramune Pekarskyte klæðist Haukatreyjunni á ný. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Ramune Pekarskyte, landsliðskona í handknattleik, hefur ákveðið að ganga til liðs við Hauka á nýjan leik, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Hún skrifar á næstu dögum undir samning við Hauka en hún lék með liði félagsins frá 2003 til 2010 við afar góðan orðstír.

Ramune, sem varð íslenskur ríkisborgari árið 2012, hefur leikið með Le Havre í Frakklandi síðasta árið en lék einnig með SönderjyskE í Danmörku 2013-2014 og með Levanger í norsku úrvalsdeildinni í þrjú ár þar á undan.

Eins og fyrr segir þá lék Ramune, sem er 34 ára gömul, í sjö ár með Haukum og var helsta tromp liðsins á þeim tíma og er ein mesta skytta sem leikið hefur hér á landi.

Ramune, sem er fædd í Litháen, hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu frá því að hún varð íslenskur ríkisborgari 2012 og hefur á þeim tíma leikið 30 landsleiki og skoraði í þeim 79 mörk.

Rameune flytur heim í sumar eftir að keppni í frönsku 1. deildinni lýkur en lið hennar er sloppið við fall úr efstu deild franska handknattleiksins. Havre komst einnig í undanúrslit í Áskorendakeppni Evrópu í vor.

Ramune verður mikill liðsstyrkur fyrir Haukana sem verða án Mariju Gedroit á næstu leiktíð en hún sleit krossband undir lok keppnistímabilsins.

Haukar höfnuðu í fimmta sæti Olís-deildar kvenna í vor hafa komst í undanúrslit í bikarkeppninni tvö síðustu árin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka