Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er í riðli með Króatíu, Hvíta-Rússlandi og Noregi á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Póllandi dagana 17.-31. janúar á næsta ári, en dregið var í riðla í Kraká í dag.
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Danmörku eru í D-riðli með Ungverjalandi, Rússlandi og Svartfjallalandi.
Þýskaland, undir stjórn Dags Sigurðssonar, er í C-riðli með Spáni, Svíþjóð og Slóveníu.
Áður en dregið var í riðla var búið að raða Póllandi í A-riðil, Króatíu í B-riðil, Þýskalandi í C-riðil og Danmörku í D-riðil. Ísland gat því ekki lent í A-riðli því liðið var með Póllandi í 2. styrkleikaflokki.
A-riðill (Kraká): Frakkland, Pólland, Makedónía, Serbía.
B-riðill (Katowice): Króatía, Ísland, Hvíta-Rússland, Noregur.
C-riðill (Wroclaw): Spánn, Svíþjóð, Þýskaland, Slóvenía.
D-riðill (Gdansk): Danmörk, Ungverjaland, Rússland, Svartfjallaland.
Mótið fer fram dagana 17.-31. janúar.
Styrkleikaflokkarnir fyrir dráttinn:
1. flokkur: Frakkland, Danmörk, Spánn og Króatía.
2. flokkur: Ísland, Pólland, Svíþjóð og Ungverjaland.
3. flokkur: Rússland, Makedónía, Þýskaland og Hvíta-Rússland.
4. flokkur: Serbía, Noregur, Slóvenía og Svartfjallaland.