Handknattleiksmaðurinn Geir Guðmundsson verður frá keppni með Val næstu sex til átta vikurnar. Þetta staðfesti Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, við mbl.is.
„Í ljós er komið að Geir er illa tognaður í aftanverður öðru læri,“ sagði Óskar Bjarni en Geir meiddist á æfingu Valsliðsins á miðvikudaginn í síðustu viku. „Vöðvinn er ekki rifinn en illa tognaður svo hann mun taka sinn tíma að að jafna sig,“ sagði Óskar ennfremur eftir að Geir hafði farið í gegnum ýtarlega skoðun hjá lækni.
Fjarvera Geir er áfall fyrir Valsliðið en hann skoraði sjö mörk í tveimur fyrstu leikjum liðsins í Olís-deildinni.
Auk Geir verður Elvar Friðriksson frá keppni næstu vikurnar eins og áður hefur komið fram í fréttum. Elvar gekkst undir aðgerð á nára fyrir skömmu og jafnvel ekki reiknað með að hann verði kominn á fulla ferð með Hlíðarendaliðinu fyrr en í upphafi næsta árs.