Bikarmeistarar ÍBV í handknattleik karla urðu fyrir miklu áfalli í kvöld þegar staðfest var að örvhenta skyttan Nemanja Malovic er með slitið krossband í hné. Hann leikur þar af leiðandi ekkert meira með liðinu á þessu keppnistímabili.
Þetta staðfesti Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, við mbl.is í kvöld. Malovic meiddist í viðureign ÍBV og Fram í Olís-deild karla fyrir viku. Grunur vaknaði strax um að meiðslin gæti verið alvarleg en staðfesting fékkst ekki fyrr en í dag.
Malovic kom til ÍBV í sumar á nýjan leik eftir að hafa leikið í tvö ár í Sviss en áður en hann hélt þangað hafði Svartfellingurinn leikið í eitt ár með ÍBV og þar áður Haukum. Malovic var ætlað að fylla skarð það sem Agnar Smári Jónsson skildi eftir sig þegar hann gekk til liðs við Mors-Thy í Danmörku.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, sagði í kvöld að meiðsli Malovic væru mikið áfall fyrir lið ÍBV og einnig leikmanninn sjálfan.
Arnar sagði að á þessari stundu stæði ekki til að leita að leikmanni til þess að fylla skarð Malovic. „Við spilum á okkar strákum og gefum okkar tíma í að skoða næstu skref. En þetta er mikið áfall fyrir okkur. Því er ekki að neita," sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
ÍBV mætir Gróttu í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi á morgun í lokaleik 4. umferðar Olís-deildar. Flautað verður til leiks klukkan 18.