FH vann langþráðan sigur í Olís-deild karla í handknattleik þegar Grótta kom í heimsókn í Kaplakrika í kvöld. FH hafði tapað þremur leikjum í röð en hafði yfirhöndina allan tímann í kvöld og uppskar sigur, 26:23, og batt því enda á þriggja leika sigurgöngu nýliða Gróttu.
Leikurinn einkenndist af nokkurri baráttu í byrjun og voru menn lengi að finna netmöskvana, en þeim mun meiri áhersla var lögð á varnarleikinn. Jafnræði var með liðunum framan af, en um miðbik fyrri hálfleiksins skoraði FH fjögur mörk í röð og náði fjögurra marka forystu.
Grótta tók leikhlé til þess að ná áttum, en náði ekki að brúa bilið það sem eftir var fyrri hálfleiks. FH-ingar náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik þar sem Ágúst Elí Björgvinsson fór mikinn í markinu, en þegar flautað var til hálfleiks munaði fjórum mörkum á liðunum, staðan 13:9.
Þetta forskot gaf FH-ingum langþráð blóð á tennurnar eftir þrjá tapleiki í röð. Heimamenn náðu sex marka forskoti snemma í síðari hálfleik og Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, var ekki glaðbeittur á svipinn í stúkunni en hann tók út leikbann í kvöld.
Það virtist lítið í spilunum að Grótta myndi komast inn í leikinn og FH hélt nokkuð þægilegu forskoti framan af síðari hálfleik. Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir náði Grótta hins vegar góðum kafla og minnkaði muninn í þrjú mörk eftir að hafa skoraði fimm í röð og breytti stöðunni úr 20:12 í 20:17.
Það var því von á fjörugum lokamínútum, en FH-ingar ætluðu ekki að láta forystuna af hendi. Þeir náðu áttum á ný og bættu við forskot sitt sem hélt út leikinn, lokatölur 26:23 og fyrsti sigur FH eftir þrjá tapleiki staðreynd.
Einar Rafn Eiðsson var markahæstur FH-inga í kvöld með 10 mörk, en Hafnfirðingar jöfnuðu Gróttu að stigum með sigrinum. Hjá Gróttu skoraði Aron Dagur Pálsson 7 mörk og hafa bæði lið nú átta stig eftir tíu leiki.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um þennan leik sem og aðra leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld.