„Fyrir neðan allar hellur“

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, er ómyrkur í mál yfir þeirri aðstöðu sem íslenskum landsliðum í handknattleik og körfuknattleik er boðið upp á. Ekki sé hægt að ganga að Laugardalshöllinni vísri til æfinga og þá sé hún orðin ólögleg sem keppnishús í alþjóða handknattleik. 

„Mér finnst aðstöðuleysi handbolta- og körfuboltalandsliðsins fyrir neðan allar hellur,“ segir Guðjón Valur í samtali við mbl.is. „Að ekki sé til alvöru aðstaða til æfinga, þá á ég við fyrir A-landslið karla og kvenna auk yngri landsliðanna er óviðundandi. Til dæmis æfum við þrisvar sinnum hér heima í landsliðinu á tveimur dögum og við æfum á þremur mismunandi stöðum," segir Guðjón Valur og bætir við að málið snúist ekki um það hvort leikmenn séu færir um að fara á milli húsa og æfa. „Við leikum okkar landsleiki hér í Laugardalshöll. Það er þjóðarhöllin." 

Þarf að leggja meira púður í umgjörðina

„Það á hreinlega að vera krafa frá Handknattleiks- og Körfuknattleikssambandinu að við fáum að æfa í Höllinni þegar þörf er á og að það sé lagt svolítið púður í umgjörð landsliðanna til æfinga og keppni. Ég geri mér grein fyrir að fjármögnun sérsambanda hér á landi er erfið en mér finnst aðstöðuleysið ekki eiga að vera á herðum sérsambandanna. Það á einfaldlega að vera metnaðarmál hjá ríki eða borg búa landsliðum okkar sómasamlega aðstöðu til æfinga og keppni. Það kostar ekki mikla fjármuni," segir Guðjón Valur. 

„HSÍ eða landsliðið þarf að betla tíma af félagsliðum til æfinga. Það er einfaldlega fyrir neðan allar hellur af mínu mati," segir Guðjón Valur. „Nú er staðan sú að landsliðið æfir þar sem það getur fengið tíma hverju sinni. Við erum að tala um íslenska landsliðið, flaggskip íþróttarinnar hér á landi," segir Guðjón Valur ennfremur og bætir við að það verði að vera meira metnaðarmál af hálfu yfirvalda í landinu að gera umhverfi íslenskra landsliða í íþróttum þannig úr garði að það sé yfir því almennilegur bragur. „Það er enginn standard yfir þessu. 

Við erum ekki að krefjast þess að fá greitt fyrir þá vinnu sem við innum af hendi heldur einfaldlega að óska eftir að aðstaða sú sem okkur er búin til æfinga og keppni sé eitthvað í líkingu við þá sem önnur landslið búa við. Við erum mörgum árum á eftir öðrum þjóðum á þessu sviði."

Þykir vænt um Laugardalshöll

Guðjón Valur segir að leikmönnum íslenska landsliðsins í handknattleik þykir vænt um Laugardalshöllina og hafi gaman af því að leika í henni. Hinsvegar sé ljóst að fyrir löngu er tími til kominn að byggð verði mannvirki sem geti hýst stóra íþróttaviðburði og tónleika, svokallaða fjölnota hús sem geti rúmar 4-5000 þúsund áhorfendur í sæti.  „Það er eitthvað sem ekki hefur verið gert, því miður.

Laugardalshöllin er einfaldlega ólögleg til alþjóðlegrar keppni í handknattleik. Það er staðreynd að við eigum ekki löglegt keppnishús í handknattleik. Það er alvarlegt mál að við erum á undanþágu með alþjóðlega leiki," segir Guðjón Valur og ítrekar að fyrst og síðast geri hann þó athugasemdir við það aðstöðuleysi sem landsliðin búa við vegna æfinga. 

Skilningsleysi ráðamanna

„Því miður er ekki mikið fjallað um þetta mál og skýringin er sú skilningur ráðamanna í landinu er ekki fyrir hendi. 

Ástæðan er vafalaust sú að það eru mörg brýnni mál sem brenna á þjóðfélaginu eins og launakjör lögreglumanna og starfsfólks í heilbrigðisþjónustu svo dæmi séu tekin. 

Engu að síður verðum við sem erum í landsliðunum að vinna í úreltu húsi, því miður," segir Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik. 

Viðtalið við Guðjón Val má hlýða á í heild sinni hér að ofan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert