Guðmundur Hólmar Helgason, landsliðsmaður í handknattleik, hefur skrifað undir samning við franska félagið Cesson Rennes um að spila með liðinu frá og með næstu leiktíð.
Guðmundur, sem er 23 ára gamall, mun því klára leiktíðina með Val en halda svo til Frakklands. Samningurinn við Cesson er til 2018.
Það var þegar orðið ljóst í júní að Guðmundur myndi væntanlega skrifa undir samning við félagið, en nú hefur verið greint frá því á heimasíðu Cesson. Þar er Ragnar Óskarsson aðstoðarþjálfari en hann þekkir vel til Guðmundar eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Vals, og lokkaði Akureyringinn til félagsins:
„Já, það má orða það þannig. Mér er ætlað þokkalega stórt hlutverk, hann allavega náði að sannfæra mig um að þetta væri góður staður til að fara út og byrja og sjá svo til hvað gerist,“ sagði Guðmundur við Morgunblaðið í sumar.
Guðmundur lék sína fyrstu landsleiki um helgina, þegar Ísland lék í Gulldeildinni í Noregi, og þótti komast vel frá sínu.
Cesson er sem stendur í 4. sæti frönsku 1. deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Paris SG.