Ákvörðunin var Eyjamanna

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, stýrir sínum mönnum gegn Fram í …
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, stýrir sínum mönnum gegn Fram í Olís-deild karla í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Róbert Geir Gíslason, starfsmaður mótanefndar HSÍ, segir rangt að karlalið ÍBV hafi ekki mátt fara með Herjólfi frá Vestmannaeyjum í dag eins og Sigurður Bragason, annar þjálfari ÍBV, sagði í samtali við fimmeinn í gær og tekið var upp í frétt á mbl.is  fyrr í dag.

ÍBV  hafi alls ekki verið skikkað til þess að fara með skipinu um miðjan dag í gær vegna leiks ÍBV og Fram í Olís-deild karla í kvöld. Það hafi verið alfarið ákvörðun forráðamanna ÍBV að fara með Herjólfi í gær en ekki dag. Í gær hafi hinsvegar ekki verið tímabært að fresta leik Fram og ÍBV vegna þess að hugsanlega yrði ekki fært frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar eða Þorlákshafnar í dag.

Ef grípa hefði þurft til þess að slá leiknum á frest í dag þá hefði næsti lausi leikdagur í íþróttahúsi Fram verið næsti laugardagur. Legið hafið fyrir mánuðum saman að íþróttahús Fram væri upptekið undir annað en íþróttaviðburði stóran hluta föstudagsins 13. nóvember. Það sé algengt að íþróttamannvirki hýsi aðra viðburði en íþróttakappleiki og æfingar og oft hafi þurft að taka tillit til þess við uppröðun á leikja í mótum, m.a. við niðurröðun úrslitakeppni Olís-deildarinnar.

Hefði komið til þess að leikurinn gæti ekki farið fram á laugardaginn var næsti leikdagur þar á eftir 21. desember.

Vegna ummæla Sigurðar um að ef leikið hefði verið á laugardaginn þá væru aðeins tveir sólarhringar fram að næsta leik ÍBV-liðsins segir Róbert það á stundum koma fyrir að aðeins líði um tveir sólarhringar á milli leikja liða í Olís-deildunum.  Nýverið liðu aðeins tæpir tveir sólarhringar milli leikja hjá kvennaliðum ÍBV og Gróttu svo nýlegt dæmi sé tekið. Þau hafi mæst í innbyrðisleik í Vestmannaeyjum á fimmtudagkvöldi og en síðan hafi ÍBV mætt Val og Grótta liði HK á laugardegi.

Fært hefur verið á milli Vestmannaeyja og lands í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert