Fengum ekki frest út af fylleríi

Theodór Sigurbjörnsson og félagar í ÍBV þurfa að leggja mikið …
Theodór Sigurbjörnsson og félagar í ÍBV þurfa að leggja mikið á sig til að mæta Fram í kvöld. mbl.is/Eggert

Eyjamenn eru allt annað en sáttir við vinnubrögð HSÍ sem ákvað að skikka karlalið ÍBV í handknattleik til að ferðast með Herjólfi til Þorlákshafnar um miðjan dag í gær, til að geta spilað við Fram í Safamýri í kvöld.

Sigurður Bragason, aðstoðarþjálfari ÍBV, segist í viðtali við vefmiðilinn Fimmeinn.is vera bæði undrandi og reiður yfir því hvernig komið sé fram við Eyjamenn, sem hafi verið skikkaðir til að ferðast til Reykjavíkur í gær. Í svari Róberts Geirs Gíslasonar, sem sér um mótamál hjá HSÍ, hjá sama miðli, segir hins vegar að ÍBV hafi svo sannarlega ekki verið skikkað til að ferðast í gær. Staðið hafi til boða að fresta leiknum fram á laugardag, eða fram til 21. desember.

Sigurður bendir á að mótanefnd HSÍ hafi sett fram einfalda reglu varðandi hugsanlega frestun á bæði úti- og heimaleikjum ÍBV, sem felist í því að hægt sé að fresta leik um einn dag ef eina færa leiðin á milli lands og Eyja er með Herjólfi til Þorlákshafnar. Það hafi ekki verið hægt að þessu sinni, að mati mótanefndar, vegna fyrirhugaðrar veislu í húsakynnum Fram í Safamýri á föstudagskvöld.

Sjá einnig: Herrakvöldið skipulagt með löngum fyrirvara

„Ég lét HSÍ vita í gær að það væri slæmt útlit með ferðir á morgun fimmtudag í Landeyjahöfn, þess vegna myndum við vilja spila á föstudag. Svo fengum við að vita það í gær að það væri ekki tekið í mál þar sem það er eitthvað fyllerí í öðrum sal í íþróttahúsinu [í Safamýri]. Mótanefnd segir að föstudagur komi ekki til greina, út af þessu fylleríi, og skikkar okkur til að spila þá á laugardag, sem gengur ekki þar sem við eigum annan leik á mánudag og mótanefnd HSÍ er með þá reglu að það þurfi að líða að minnsta kosti 2 dagar á milli leikja,“ sagði Sigurður við Fimmeinn.is, og bætti því við að sér þætti þetta skammarlegt.

Leikmenn ÍBV þurftu að hætta snemma í skóla og vinnu í gær til að ferðast til Þorlákshafnar, taka sér frí allan daginn í dag, og snúa svo aftur til Eyja kl. 15 á föstudag.

„Ég er brjálaður yfir þessum vinnubrögðum. Reglur eru beygðar trekk í trekk á okkar kostnað,“ sagði Sigurður.

Leikir kvöldsins í Olís-deild karla:
18.00 Fram - ÍBV
18.30 Akureyri - Afturelding
19.30 ÍR - FH
20.00 Grótta - Víkingur

Sjá einnig: Herrakvöldið skipulagt með löngum fyrirvara

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert