Værukærir eftir fyrri hálfleikinn

„Eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik var frammistaðan í síðari hálfleik vonbrigði, ekki síst að fá að sig átján mörk,“ sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður franska liðsins Saint-Raphaël eftir eins marks sigur, 29:28, á Íslandsmeisturum Hauka í Schenkerhöllinni í kvöld í fyrri leik liðanna í 3. umferð EHF-keppninnar í handknattleik.

Arnór skoraði sex mörk og var næst markahæstur leikmanna franska liðsins.  „Við eigum ekki að fá á okkur átján mörk í síðari hálfleik, sama hver andstæðingurinn er. Kannski mættum við værukærir til leiks í síðari hálfleik eftir að hafa verið með fimm marka forskot,“ sagði Arnór.

„Við unnum og það skiptir mestu máli. Nú er heimaleikurinn eftir,“ sagði Arnór.

Nánar er rætt við Arnór Atlason á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert