Ólafur snýr aftur til Kristianstad

Ólafur Guðmundsson fagnar marki fyrir Kristianstad en hann raðaði inn …
Ólafur Guðmundsson fagnar marki fyrir Kristianstad en hann raðaði inn mörkum fyrir félagið þegar hann var þar síðast. Ljósmynd/Heimasíða Kristianstad

Handknattleiksmaðurinn Ólafur Guðmundsson hefur ákveðið að snúa aftur til Kristianstad í Svíþjóð, þar sem hann lék við afar góðan orðstír á árunum 2012-2014.

Ólafur fór frá Kristianstad til Hannover-Burgdorf í Þýskalandi en átti erfitt uppdráttar hjá félaginu, meðal annars vegna meiðsla. Félagaskipti hans til Kristianstad taka þegar í stað gildi og má hann spila með sænska liðinu í næsta deildarleik sem er gegn Sävehof á sunnudaginn. Ólafur samdi við Kristianstad til ársins 2018.

Kristianstad er á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir 11 leiki. Liðið leikur einnig í Meistaradeild Evrópu en þar verður Ólafur ekki gjaldgengur fyrr en eftir áramót.

Ólafur er 25 ára gamall og leikur jafnan sem vinstri skytta. Hann er uppalinn hjá FH en samdi við AG Köbenhavn í Danmörku árið 2010. AG lánaði hann til FH og Nordsjælland en Ólafur fór svo til Kristianstad sumarið 2012 eins og fyrr segir. Hann á að baki 61 A-landsleik og var í hópnum sem vann til bronsverðlauna á EM í Austurríki 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert