Sandra Erlingsdóttir, handknattleikskona hjá þýska 1. deildarliðinu Füchse Berlín, var valin besti leikmaður fjögurra þjóða móts í handknattleik kvenna um liðna helgi. Landslið skipuð leikmönnum 18 ára yngri tóku þátt í mótinu sem haldið var í Póllandi.
Íslenska landsliðið tapaði naumlega fyrir Tékkum, 21:19, og fyrir Pólverjum, 22:19, þar sem úrslit réðust á síðustu mínútum leikjanna. Ísland vann landslið Hvíta-Rússland í lokaleik sínum í mótinu 26:23.
Framganga Söndru vakti verðskuldaða athygli á mótinu enda lék hún stórt hlutverk í íslenska liðinu. Sandra hefur átt fast sæti í liði Füchse Berlín í vetur þrátt fyrir ungan aldur. Hún á ekki langt að sækja handboltahæfileikana en foreldrar hennar eru Erlingur Richardsson, þjálfari Fücshe Berlín, sem lék lengi m.a. með ÍBV, og Vigdís Sigurðardóttir, markvörður, sem m.a. lék með ÍBV og Haukum og varð Íslandsmeistari með báðum liðum. Bæði Erlingur og Vigdís eiga að baki landsleiki.