Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Ríó í Brasilíu í sumar. Þeir félagar fengu boð þess efnis í kvöld og hafa þekkst boðið. Þetta er í fyrsta skipti sem þeir dæma á Ólympíuleikum og aðeins í annað sinn sem íslenskir dómarar verða í hópi dómara í handknattleikskeppni leikanna frá því að handknattleikur var tekinn inn á dagskrá leikanna 1972.
„Þetta er mikill heiður fyrir okkur og íslenska handknattleiksómara um leið," sagði Anton í samtali við mbl.is fyrir skömmu. Hann var eðlilega í sjöunda himni enda hafa þeir félagar lengi haft á stefnuskránni að dæma á Ólympíuleikum. „Það liggur mikil vinna að baki þessum árangri. Að dæma á Ólympíuleikum er eitthvað sem við höfum stefnt að og fórnað mjög mörgu fyrir," sagði Anton Gylfi ennfremur en hann hefur verið í fremstu röð alþjóðlegra handknattleiksdómarar í um áratug, fyrst með Hlyni Leifssyni en síðustu ár í samstarfi við Jónas.
„Við Jónas eru í sjöunda himni þessa stundina," sagði Anton Gylfi og skal engan undra.
Stefán Arnarsson og Gunnar Viðarsson dæmdu fyrstir íslenskra handknattleiksdómarar á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004.