Er alveg hrikalega svekkt

Elín Jóna Þorsteinsdóttir.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir. Eggert Jóhannesson

„Ég er alveg hrikalega svekkt,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður íslenska U20 ára landsliðsins í handknattleik í samtali við mbl.is eftir tap landsliðsins fyrir Austurríki, 25:22, í lokaumferð riðlakeppni HM í íþróttahúsinu við Strandgötu í dag. Við tapið fór síðasta von íslenska landsliðsins um sæti í lokakeppni HM í sumar.

„Ég hafði svo mikla trú á liðinu fyrir leikinn í dag en síðan lentum við á mjög slæmum degi, helst í sókninni en einnig um tíma í vörninni þar sem við vorum að missa leikmenn austurríska liðsins mikið inn á línunni og í vítaköst,“ sagði Elín Jóna sem átti stórleik og varði 25 skot, var með 50% hlutfallsmarkvörslu.

„Framan af fyrri hálfleik var leikur okkar í lagi en síðan fórum við að missa of mikið af tækifærum í sókninni sem gerði að verkum að munurinn var orðinn mikill um tíma, fjögur til fimm mörk,“ sagði Elín Jóna.

„Við þurftum að mæta í leikinn af mikið meiri krafti en raun varð á. Það var einfaldlega meira hungur í austurríska liðinu en okkar.  Það vantaði svolítið upp á að við gæfum okkar allir í verkefnið.  Það er einfaldlega staðreynd og nú verðum við að koma ákveðnari í næsta verkefni,“ sagði Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður íslenska U20 ára landsliðsins í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert