Karólína er komin heim

Karólína Bæhrenz Lárudóttir.
Karólína Bæhrenz Lárudóttir. mbl.is/Golli

Handknattleikskonan Karólína Bæhrenz Lárudóttir hefur sagt upp samningi sínum við sænska B-deildarliðið Boden Handboll og er flutt heim til Íslands á nýjan leik.

Karólína, sem var í Íslands- og bikarmeistaraliði Gróttu á síðustu leiktíð, æfir um þessar mundir með Gróttu-liðinu. Hún getur hins vegar ekki haft félagsskipti yfir til íslensks félagsliðs fyrr en keppnistímabilinu er lokið hér heima í vor. Um þessar mundir er lokað fyrir félagsskipti. Hvort hún gengur til liðs við Gróttu eða ekki er óvíst.

Karólínu mun ekki hafa líkað lífið í herbúðum Boden Handboll þar sem hún fékk m.a. fá tækifæri til þess að láta á hæfileika sína reyna.

Karólína er þrautreynd. Auk þess að hafa verið í meistaraliði Gróttu fyrir ári varð hún nokkrum sinnum Íslands- og bikarmeistari með Val. Karólína var markahæsti leikmaður Gróttu í deildarkeppninni 2014/2015 með 105 mörk. Hún á 21 leik að baki með A-landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert